Ekkert í sauðargæru!

    Það er fátt sem mér finnst hvimleiðara en fyrirsögn greinar - ég tala nú ekki um forsíðu fyrirsögn eða titill á kvikmynd eða bók sem ýtir undir miklar væntingar af því sem koma skal, en þegar nánar er að gáð er efnið algerlega innihaldslaust.
     Ég varð fyrir þessari leiðinlegu reynslu fyrir skömmu og ekki í fyrsta sinn. Ég sá fyrirsögn framan á einu af hágæða tímaritum landsins, sem hljóðaði eitthvað á þessa leið; „Frægðin eyðilagði einkalífið“ og átti hún að höfða til ummæla Magna Ásgeirssonar, en stór mynd af honum prýddi alla forsíðuna.
     Ég hafði séð þetta blað á nokkrum stöðum til sölu, en þá hafði fjárhagurinn ekki verið uppá það besta til að kaupa þetta tæplega eitt þúsund króna rit.
     Dag einn hafði eitthvað rofað til í fjármálunum svo ég ákvað að skella mér á eitt eintak, þar sem ég hafði fylgst grannt með veru Magna í Bandaríkjunum og eftir að hann kom heim. Ég hafði mikið álit á drengnum og eiginkonu hans, sem hann hafði þráð svo mikið ásamt kornungum syni þeirra, þegar hann var ytra.
     Mér hafði nýlega borist til eyrna að hjónaband Magna væri í uppnámi, sem hryggði mig mjög og langaði mig til að fá einhverja staðfestingu á því.
     Þessi grein var það fyrsta sem ég hafði rekist á þar sem Magni sjálfur tjáð sig og fyrirsögnin gaf skýrt til greina að hann myndi tala um neikvæð áhrif frægðarinnar á einkalíf sitt. Ég var því glaður að hann kæmi fram í eignin persónu og útskýrði þessi sorglegu mál og staðfesti það sem staðfesta þurfti. Það lá því spenna í loftinu hjá mér, að vita hvað hefði eiginlega gerst.
     Það fyrsta sem blasti við þegar ég leit á greinina var, að hún var sett upp með ljósum stöfum á svörtum grunni, sem mér fannst mjög erfitt að lesa, en þegar ég hafði kraflað mig fram úr greininni blasti sú nöturlega staðreynd við að ekki EITT aukatekið orð um einkalíf Magna var þar að finna, heldur endurtekið efni um allt annað, sem ég hafði allt heyrt áður, frá orði til orðs, bæði í Kastljósi í umsjá Evu Maríu eftir að Magni var nýkominn til landsins og einnig í öðrum þáttum sem ég ætla að ég hafi séð á SkjáEinum í þættinum „Frá 6 til sjö“.
     Þetta tel ég hrein vörusvik og er að mínu mati skólabókardæmi um ekkert í sauðargæru!
Bandit


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Þetta er ekki eina dæmið í tímaritum okkar.... hef margoft lent í því að kaupa þessi innihaldslausu tímarit sem segja nákvæmlega EKKERT!

Svo hafa útgefendur líka tekið sig til og plastað allt draslið þannig að fyrirsögn sem hrópar á mann í búðinni er ekki hægt að dæma fyrr en blaðið er keypt!

Snilldar sölutrix fyrir EKKERT ;)

Eva Þorsteinsdóttir, 31.5.2007 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband