22.5.2007 | 23:34
Það getur verið lífshættulegt að hafa ekki hús merkt númeri sínu - hvort sem það er þitt eigið eða þar sem þú ert gestkomandi
Ég lenti í því fyrir skömmu, að þurfa að koma á tilsettum tíma á mikilvægan fund í nýlegu hverfi í Hafnarfirði og því var mér hugsað til þess þegar ég var læknanemi að störfum ásamt Guðmundi Ólafssyni, heitnum, lækni á bíl Læknavaktarinnar sf. Náði þjónustusvæðið þá yfir allt Stór- Reykjavíkur svæðið.
Starfið felst enn, eins og flestir vita, í því að vitja sjúkra á heimilum þeirra þar sem þeir treysta sér ekki til að leita sér aðstoðar sjálfir eða að viðkomandi þarfnast þjónustu læknis tafarlaust.
Bílstjórar okkar voru oftast þaulvanir leigubifreiðastjórar sem voru ótrúlega fundvísir á heimili skjólstæðinga okkar sem oft á tíðum voru í bakhúsi þar sem jafnvel þurfti að ganga í gegnum nýrra hús til að komast inn í bakhúsið - eða að viðkomandi bjó í iðnaðarhverfi þar sem útbúið var íbúðarhúsnæði.
Hús í þessum hverfum eru oftar en ekki án númera og nafn götunar stundum einhverjum kílómetrum frá húsnæðinu sem við þurftum að komast í.
Oft á tíðum var það hin mesta gestaþraut að finna þá sem höfðu leitað hjálpar.
Að sjálfsögu tafði þetta starf okkar til muna og bitnaði að sjálfsögðu á þeim sem biðu þjónustu okkar og einnig hinna sem voru með hús sín og híbýli vel merkt.
LEITIN AÐ INNGANGINUM TÓK ÞRISVAR SINNUM LENGRI TÍMA EN AKSTURINN Á STAÐINN
Slælega merkt íbúðarhúsnæði olli verulega alvarlegu vandamáli þegar hringt var og samkvæmt innhringingunni mátum við ástand viðkomandi þannig að við þyrftum að komast á staðinn eins fljótt og hægt var. Til þess að komast á staðinn sem fyrst voru fyrstu viðbrögð meðal annars að aka þangað með forgangsakstri - það er með sírenur og blikkljós í gangi, og í framhaldi af honum að hlaupa að íbúð viðkomandi, sem ég minnist eitt sinn að inngangurinn var frá litlum garði, í gegnum þvottahús og inn í jarðhæðina.
Þetta var nokkuð sem alltof oft beið okkar og orsakaðist stundum vegna þess að númerið snéri út að götunni en aðalinngangurinn var hinu megin við húsið.
RÍKISSKILTIÐ
Það reyndist oft þrautinni þyngri að finna viðkomandi í viðkomandi vistarveru, til dæmis vegna þess að:
- um einhvers konar bakgötu var að ræða sem hún var við, götu á nýbyggingasvæði, götu sem var í einu af þessum flóknu hverfum með mikið af einstefnu og blind götum eða götu sem hreinlega var ekki merkt einhverra hluta vegna.
húsið sem hún var í bar eigið nafn og ekkert númer. að vandamálið var oft á tíðum ekki alveg úr sögunni þó húsið væri fundið, því þá átti eftir að finna réttan inngang. Þó merking hans væri kannski góð þá snéri hún stundum frá aðkeyrslunni að húsinu þannig að númerið sást alls ekki úr bílnum. oft á tíðum, sérstaklega í eldri hverfum borgarinnar, þar sem garðurinn snéri að götu var númerið torséð vegna trjáa sem birgðu sýn og í þokkabót var númerið oft af hinni fornu gerð, það er lítið, ferhyrnt, dökkblátt með hvítri tölu. Þessar númeraplötur voru tilkomnar fyrir mína fæðingu, á sjöunda áratugnum og örugglega upprunnar í einhverri ríkisverksmiðju og átti sennilega að vera hin staðlaða ríkishúsnúmeraplata. Þessar plötur höfðu flestar þjónað út sinn tíma og voru orðnar það ryðgaðar að númerið var ekki lengur læsilegt eða það illlæsilegt að fara þurfti út úr bílnum, hlaupa að húsinu til að lesa af skiltinu, en slík vinnubrögð áttu ekki að vera inn í myndinni undir neinum kringumstæðum og þá allra síst þegar um neyðarútkall var að ræða.
vandræðunum var oft ekki lokið þó réttur inngangur var fundinn ef um fjölbýlishús var að ræða. Þegar inn var komið voru bjöllurnar oft svo illa merktar að rétt íbúð hefði verið vandfundin ef við hefðum ekki haft lýsingu á staðsetningu íbúðarinnar frá skiptiborði Vaktarinnar.
Ég ætla að þetta ástand sé algerlega óviðunandi þar sem hver mínúta skiptir máli þegar neyðarástand hefur skapast hvort heldur það eru bráðasjúkdómar, slys, eldsvoðar, lekar hvers konar eða annað það sem kallar á að komast verður á staðinn eins fljótt og hægt er. Hugsið um allar þær verslanir og bakhús sem standa við Laugaveginn og einhver fær hjartaáfall, heilablóðfall eða þaðan af verri sjúkdóm í þessum ómerktu húsum.
VERSLANA OG FYRIRTÆKJAGÖTUR VERSTAR
Undirritaður hefur oft hugsað um þessa reynslu sína þegar hann hefur, í miklu tímahraki, þurft að leita að fyrirtæki, eða einstaklingum í götum eins og til dæmis Ármúla, Síðumúla, Suðurlandsbraut, Grensásvegi, Hverfisgötu, Laugavegi og mörgum öðrum svipuðum götum.
Það segir sig sjálft að það hlýtur að skapa aukið öryggi að hægt sé að veita hjálp eins fljótt og auðið er fyrir þá sem eru í bráðri lífshættu einhverra hluta vegna eða verðmæti, sem liggja undir skemmdum.
Það er því ódýr trygging fólgin í því að hafa öll hús og híbýli vandlega merkt þannig að auðvelt sé að veita aðstoð þegar vá ber að höndum svo ekki sé talað um þegar færð er slæm, myrkur og veður válynd.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.