6.6.2007 | 20:14
Ómar, ég og árásirnar sem við urðum fyrir!
Þeir sem ekki hafa lesið eða heyrt sögu Ómars Ragnarssonar um þá fólskulegu árás sem hann varð fyrir um miðjan maí síðast liðinn, ættu að skjótast inná síðuna hans og lesa þar hvað gerðist.
Í stuttu máli var hann að aka Vesturlands-veginn til vesturs, og var að koma af fornbíla sýningu sem haldin var uppá Höfða.
Hann var á litla Prinzinum sínum þegar bíl var ekið framúr honum, með manni hálfum út um farþega glugga, öskrandi Ómar! Helvítið þitt!.
Bíllinn var stöðvaður skáhalt á þessari þriggja akreina stofnbraut, sem átti að varna því að hann kæmist áfram.
Maðurinn kom froðufellandi út með hnefann á lofti en Ómari tókst að snúa bíl sínum þannig að hornið, farþegamegin, þar sem hurðin var læst, snéri þá að manninum, sem beið ekki boðanna og þrumaði hnefanum í gegnum rúðuna þeim megin en hnefinn náði ekki til Ómars. Maðurinn lét því hnefann dynja á bifreiðinni svo að stór sá á bílnum, einkum vélarhlífinni.
Ómar, sem aldrei hafði stöðvaði bíl sinn alveg komst í burtu af vettvangi og eins skjótt og fanturinn kom var hann á bak og burt, þannig að Ómar slapp með skrekkinn.
Ég er því ólýsanlega feginn að hann slapp óskaddaður frá þessum hildarleik og á hann alla mína samúð að hafa lent í þessu.
Ég er sannfærður um að þessi árás hafi verið tilefnislaus - þrátt fyrir að mannfíflið hafi öskrað nafnið hans. Flestir þessara fantar búa, að mínu mati, einfaldlega ekki yfir nægjanlegu viti og rökhugsun til að skipuleggja svona nokkuð og því er ég viss um að þetta var bara óláns tilviljun.
Öfgarnar sjást gleggst þegar fólk, hér á landi, er barið í götuna og þegar það er hætt að verja sig þá hefja árásarmennirnir ekki að leita eftir verðmætum á því, heldur halda þeir misþyrmingunum áfram með því að sparka í það liggjandi og hversu lengi fer sennilega eftir þolinmæði eða ánægju hvers og eins.
Á flestum stöðum erlendis er yfirgnæfandi fjöldi árása til að hafa fé eða annað, sem talið er vera verðmætt, af fólki; svo sem skartgripi, skilríki og vegabréf, sem hvoru tveggja hefur verið hægt að breyta og falsa þar með.
TILEFNISLAUS ÁRÁS Á MIG Í REYKJAVÍK
Ég hef lent í hvoru tveggja: Annars vegar tilefnislausri árás hér í Reykjavík og síðar í árás, sem hafði tilgang - í Amsterdam.
Líkamsárásin í Reykjavík
Í því tilfelli var árásarmaðurinn einn af fleiri veitingamönnum og eigendum Gauks á Stöng og var hann einn við vinnu á barnum, þegar mig bar að.
Þetta var daginn fyrir þrítugs afmælið mitt og ég var að koma úr afmælishófi í Hlaðvarpanum, tiltölulega snemma kvölds, þegar við systir mín og tvær vinkonur hennar ákváðum að fá okkur eina bjórkollu áður en við héldum heim á leið, því ég ætlaði að halda upp á afmælið mitt daginn eftir.
Þar sem ég stóð fyrir framan stórt og breitt barborðið innan um fjölda fólks vissi ég ekki fyrr til en barþjónninn hrópaði tryllingslega nafnið mitt, um leið og hann teygði sig yfir borðið, leiftursnöggt og tók mig hálstaki, sem ég náði ekki að losa mig úr, og barði án afláts stál hanastéls hristara í gagnauga mitt þangað til að æðar í höfðinu sprungu og blóðið spýttist yfir mig allan og yfir ný föt sem ég hafði keypt fyrir viðtal sem ég átti að eiga við Eddy Murphy í Amsterdam um viku síðar.
Fólkið í kringum okkur hreyfði hvorki legg né lið mér til hjálpar og þegar árásarmaðurinn hafði lokið sér af, hélt hann áfram vinnu sinni eins ekkert hefði í skorist og það var á honum að sjá að honum þætti þetta eðlilegasti hlutur í heimi.
Ég var svo þrumulostinn og hissa þannig að til allrar hamingju hélt ég ró minni - því ég var mun hærri og öflugri en hann og mér hefði verið í lófa lagið að vippa mér inn fyrir borðið og jafna um kauða - að mér fannst. En þegar maður lítur til baka þá hefði það ekki verið svo viturlegt.
Það er staðreynd, að til dæmis eftir neyslu englaryks PCP, þá er eins og afl vöðvanna margfaldist, menn éta gler og oft þarf að skera á sinar í hendinni eða upphandlegnum til að losa vopn úr höndum þeirra.
Mér fannst ég ekki hafa neitt uppúr einhverri gagnárás og vissi þar að auki ekkert um í hvaða ástandi maðurinn var. Það varð því úr að ég bað systur mína að fara yfir á miðbæjarstöð lögreglunnar og kalla þar lögregluþjóna til vitnis. Vinkonur hennar náðu í þurrkur á salernum staðarins til að ég gæti haft einhvern hemil á blóðrennslinu. Ég held að lögreglan hafi talað eitthvað við manninn og fólk sem var þarna á staðnum en ég hef aldrei fengið neina staðfestingu á því.
Ljósm.: Hafnarfjarðarlögreglan
Tveir lögregluþjónar óku okkur systkinunum á slysavarðstofuna þar sem ég var saumaður. Síðar prísaði ég mig sælan fyrir að blóðið skyldi spýtast út, í stað þess að renna undir húðinni yfir hálft andlit mitt og mynda jafnstórt mar.
Ég hringdi til mannsins uppúr hádegi, daginn eftir. Börn og svo eiginkona komu í símann og sögðu mér að hann væri sofandi, því hann hafði verið við vinnu kvöldinu áður. Ég krafðist þess að fá að tala við manninn, sem kom í símann, en hann gat enga skýringu gefið á þessu athæfi sínu og spurði hvort ég gæti ekki hringt seinna því hann vildi fá að sofa áfram. Ég gerði það og þá tjáði hann mér að ég hefði alls ekki verið með neinn dónaskap og hann ræki varla minni til þessa atburðar og sagði, að mig minnir, að sér þætti þetta frekar leitt.
Ég sagði honum að ég væri á förum til útlanda og hefði nýlega keypt þessi föt, sem ég hafði verið í, til fararinnar. Hann sagðist viljugur að bæta mér skaðann en hann vildi að ég reyndi fyrst að fara með fötin í hreinsun og benti mér síðan vinsamlega á að ég gæti keypt mér ný föt úti, því föt hlytu að vera ódýrari þar en hér og þegar ég kæmi heim skyldi hann greiða mér eitthvað í skaðabætur -fyrir fötin!
Mér var tjáð í hreinsuninni að fötin kæmu alltaf til að missa lit þar sem reynt yrði að ná blóðinu úr og því yrðu þau aldrei eins og ný og sum jafnvel bara til að nota í einhvers konar óþrifavinnu eins og garðvinnu, til dæmis í sumarbústað.
Ég fór niður á Gauk á stöng og talaði við hina
eigendurna, sem sumir höfðu verið með mér í MH. Þeir borguðu mér út í hönd andvirði fatanna og hvöttu mig til að kæra manninn (þannig að eitthvað hafa þeir vitað meira en ég um manninn). Ég fór því uppá lögreglustöð og hugðist kæra. Mér var sagt af lögregluþjóni þar að ef ég kærði og léti kæruna gagna áfram þá væri allt eins líklegt að staðurinn myndi missa vínveitingaleyfið, sem segir sig sjálft að myndi gera útaf við hann. Mér hugnaðist það ekki þegar ég hugsaði til fyrrverandi skólafélaga minna sem voru alsaklausir og höfðu þar að auki greitt mér skaðabætur umyrðalaust fyrir misgjörðir félaga síns. Við svo búið ráðlagði þjónn réttvísinnar mér að hann myndi geyma þessa kæru í skúffu hjá sér þangað til mér hugnaðist að gera alvöru úr málinu - sem enn hefur ekki orðið!
Furðulegast af þessu öllu var að ég hafði bæði skrifað mjög vinsamlega grein um staðinn og einnig um bjór sem þeir höfðu látið framleiða undir merkjum staðarins ásamt því að birta myndir af þeim öllum kampakátum - en þetta var þakklæti þessa manns.
Ég hitti hann nokkrum árum síðar þegar ég kom sem leiðsögumaður með ferðamenn á Hótel Hallormsstað og tók hann þá á móti mér sem hótelstjóri, hafði rakað höfuð sitt bersköllótt og sagði um leið og ég kom inn No hard feelings? Er það nokkuð? Þetta er bara búið og gert og eigum við ekki bara að gleyma þessu? Það var fátt um svör af minni hálfu og sambúðin í þessa tvo daga gekk stórslysalaust fyrir sig.
Ég frétti það hjá starfsfólkinu að hann hafði farið í einhvers konar meðferð og gáfu í skin að það hefði verið eiturlyfja meðferð - án þess að ég hafi fengið það staðfest.
Ég hef ekki heyrt af þessum manni né séð eftir þetta.
ÁRÁS SEM HAFÐI TILGANG
Í hinu tilfellinu var ég í Amsterdam, við blaðamennsku, þegar ég gekk heim eftir að hafa verið á næturvakt með lögreglumönnum borgarinnar í hættulegasta hverfi hennar Rauða hverfinu, bæði gangandi og akandi - en mest gangandi þar sem hliðar götu og aðrar götur meðfram síkjunum voru ansi þröngar.
Að viðburðaríkri vaktinni lokinni, um sex leytið að morgni og enn í náttmyrkri hélt ég heim á leið, sem hefur ekki verið meira en um 20 mínútna gangur, hefði ég farið eftir því sem upplýsingafulltrúi lögreglunnar sagði við mig fyrr um daginn þegar ég spurði hann, í höfuðstöðvum lögreglunnar í Amsterdam, (og sótti um að fá að fylgjast með þessari vakt) hvort þessi borg væri hættuleg. Svaraði hann því til að gengi maður að næturlagi eftir stóru, upplýstu, götunum væri hættan á að verða fyrir einhverju aðkasti hverfandi.
Ég gekk út úr Rauða hverfinu í fylgd tveggja lögregluþjóna sem ég kvaddi og gekk upp vel lýsta verslunarbreiðgötu, sem lá alla leið upp að aðaljárnbrautarstöðinni, sem var allnokkur spotti og þar hefði ég þurft að taka stóra u-beygju og til baka á aðra vel upplýsta breiðgötu og ganga niður undir þann stað sem ég var á nema að þar hefði hótelið mitt verið.
Myndavéla taskan sem ég var með á öxlinni innihélt tvennt af öllu fyrir utan rafhlöður og tvö þung upptökutæki, var farin að síga heldur betur í eftir alla göngu næturinnar. Þarna þar sem ég gekk rólega upp götuna var mikil freisting ganga til hægri og fara eftir mjórri götu næstum því einstigi sem skar u-ið í tvennt og sömuleiðis vinsælustu verslunargötu borgarinnar Kalvestraat sem á þessum tíma sólarhrings var svo til óupplýst og grá fyrir járnum, þar sem málmtjöld voru fyrir öllum framveggjum hverrar verslunar.
Þegar ég var kominn á móts við hótelið mitt hinu megin u-sins tók ég þá ákvörðun að beygja til hægri inná eitt þessara einstiga, þar sem inngangurinn var varðaður af skært upplýstu Cambioi, sem gaf mér ákveðið traust. Þar var hægt að taka út reiðufé af kreditkorti eða skipta ferðatékka. Þarna var opið allan sólarhringinn og hvít og svartklætt fólk var þar fyrir innan þykkt, skothelt gler til þjónustu reiðubúið.
Það nikkaði til mín um leið og ég hraðaði mér eftir einstiginu, hljóp þvert yfir Kalvestraat og yfir að hinum helmingi þessarar þröngu götu. Það var ekki sála á ferð og mér fannst ég sjá glitta í hótelið mitt. Mikið hlakkaði ég til að leggjast niður og hvíla mig!
Þegar ég var nýkominn inn á einstigið aftur snéri maður sér að mér, svartur á hörund, Surinami - að ég held og var eftirtektarvert að hann var pollrólegur. Hann spurði hvort ég ætti eld, en áður en mér gafst ráðrúm til að svara tók hann eldsnöggt upp fjaðurhníf og stakk honum þéttings fast að hálsi mér, með oddinn fram þannig að mér fannst sem hnífurinn hefði gengið örlítið inn í hálsinn - svo mikill var sársaukinn. Hann skipaði mér ákveðið að láta sig hafa peninga. En ég bað hann um að vera rólegan og sagðist vera að ná í þá, en honum fannst ég eitthvað svifaseinn og tók þá að öskraða á mig að afhenda sér peningana strax, jafnframt því sem hann hótaði að stinga mig í kviðinn. Þegar ég var við það að taka upp lausa peninga úr innri brjóstvasanum á jakkanum mínum teygði hann aðra höndina á eftir minni niður í vasann og náði þar með öllu sem þar var; lausafé, alþjóða blaðamanna passanum, kreditkortum, sem voru í leður hulstri og vegabréfinu mínu. Við svo búið hvarf hann á braut.
Ég er ekki vanur að vera með vegabréfið á mér en á þessum tímum var lítið um hraðbanka í Amsterdam, en þeim mun meira af af þessum litlum skotheldum búrum sem báru yfirskriftina Cambio, þar sem ég þurfti að sýna vegabréfið mitt.
Þessi árás var gerð af ákveðnu tilefni öfugt við það sem gerðist í heimaborg minni!
Þegar maðurinn var horfinn hljóp ég mína leið heim á Holliday Inn hótelið mitt og sagði næturvaktinni þar mínar farir ekki sléttar og benti starfsfólkið mér á að tilkynna þetta til lögreglunnar til að ég gæti hugsanlega fengið eitthvað út úr tryggingunum og í öllu falli neyðar kreditkort frá korta fyrirtækinu.
Ég gekk því yfir götuna og inná lögreglustöðina og fékk sögu mína skráða. Eftir það var komið með bunka af ljósmynda albúmum og ég vinsamlegast beðinn um að reyna að bera kennsl á árásarmanninn.
Ég hafði séð andlit hans nokkuð skýrt, miðað við aðstæður, og var því nokkuð vongóður um að þekkja hann. Þegar ég hóf að fletta í gegn um þessar hundruðir mynda fór mér að líða eins og þegar ég kom fyrst til frænda míns Árna bónda á Bíldsfelli eftir stækkunina á fjárhúsinu, sem þá hýsti tæplega þúsund ær og lömb þeirra og þær nær undantekninga laust alhvítar. Mér fannst þær allar eins!!! Sama gilti um þessar hundruðir negramynda að mér fannst þær svo að segja allar eins.
Einhverjum allt of mörgum hálftímum síðar gafst ég upp og það varð bara að hafa það.
Þegar ég heimsótti kunningja mína á lögreglustöðinni frá því um nóttina í Rauða hverfinu þar næsta dag, komst ég að því að sá svarti hafði að öllum líkindum verið látinn vita af ferðum mínum skömmu áður, því líkurnar á að hitta mann í þessu mannlausa hverfi, á þessum tíma sólarhrings, voru hverfandi - án þess að látið væri vita af ferðum mínum.
Þessu ótrúlega kerfi mun ég lýsa í annarri færslu og segja einnig frá því að mér tókst að finna kauða um miðjan dag tveimur dögum síðar og hjálpaði það mikið til að hann var í sömu fötunum og um nóttina þegar árásin átti sér stað.
NÆST ÞEIRRI TILFINNINGU SEM ÉG GET ÍMYNDAÐ MÉR AÐ FÓRNALÖMB NAUÐGARA UPPLIFI
Ég held að þarna hafi ég komist næst þeirri tilfinningu að vera nauðgað. Ég var gjörsamlega varnarlaus og það var algerlega undir þessum ókunnuga manni komið hvað verða myndi um líf mitt, líkama og limi.
Ég upplifði þetta sem algera niðurlægingu, því þarna var aðallega vegið að andlegu lífi mínu og sjálfstæði sem frjáls einstaklings og ég þvingaður andlega til að gera eitthvað gegn mínum vilja með hótunum um líkamsmeiðingar og lífláti. Hvað vissi þessi maður um líffærafræði? hugsaði ég með mér eftirá. Hvar hefði þessi langi hnífur lent í iðrum mínum og hversu miklum skaða hefði stungan valdið? - hefði hann gert alvöru úr hótun sinni.
Af þessum þremur dæmum er hægt að sjá muninn á tilefnislausum árásum á Íslandi og árás með tilefni og skipulagi erlendis!
Athugasemdir
Sæll,
Ég upplifði svipaða valdbeitingu í Amsterdam fyrir mörgum árum þegar ég var á ferð með félaga mínum að næturlagi.
Við vorum á rölti í einum af skuggahverfum borgarinnar þegar á einum staðnum snýr sér að okkur hörundsdökkur maður og biður félaga minn um að gefa sér pening. Ég labba áfram og virði manninn ekki viðlits. Að lokum sný ég mér við og fer að fylgjast með viðureigninni. Maðurinn verður sífellt ágengari við félaga minn sem afsakar sig í sífellu "I have only VISA card - but you can come with me to next automat!"
Uppákoman er meira en lítið spaugileg og ég fer að hlæja að þessu öllu saman og kalla á félaga minn um að fara að drífa sig. Vindur þá sá svarti sér að mér og fer að biðja mig um pening!
Ég hélt nú ekki. Sveitamaðurinn og grænn Íslendingurinn var nú ekki alveg á þeim buxunum að fara að styrkja einhvern betlandi atvinnuleysingja í Amsterdam. Í staðin byrja ég að lesa yfir vininum og spyr hann því í ósköpunum hann fái sér ekki almennilega vinnu eins og annað fólk (Why don’t you get a descent job....) !
Hann verður eitthvað súr við þessa athugasemd og tekur upp hníf og spyr mig hvort að ég hafi séð svona áður?
Ég bakka aðeins og segi "lets get the police" og einhvern vegin verður honum svo mikið um að hann hleypur í burtu!
Það er greinilegt að við íslensku sveitamennirnir eigum eftir að læra margt varðandi borgarmenningu úti í hinum stóra heimi
Síðan er ég búinn að ferðast mikið út um allan heim með dýrar myndavélar og tölvur og hef aldrei upplifað að vera rændur eða áreittur. Líklega hefur það eitthvað með framkomu eða útlit að gera.
En ég hef stundum farið í þessi "vafasömu" hverfi að næturlagi til að mynda fólkið og hef oft verið hissa að þetta fólk skuli ekki fyrir löngu hafa ráðist á mig - líklega er það meira hissa en ég að sjá mann eins og mig vera að mynda það á þessum stöðum - hver veit?
Kjartan
Kjartan Pétur Sigurðsson, 7.6.2007 kl. 07:40
Takk fyrir "skemmtilega" frásögn og áhugaverða. Hef sjálfur aldrei lent í neinu hér heima en lenti í svipupu böggi í Amsterdam fyrir mörgum árum, þar var reyndar gengi sem reyndi að ræna okkur 4 félagana sem vorum saman á ferðalagi og frekar slompaðir. Allt fór þó vel og ræningjarnir höfu nánast ekki neitt upp úr krafsinu, fyrst og fremst þar sem við vorum svo fullir og vitlausir að gefa okkur ekki og vorum komnir í hálfgerð slagsmál þar sem hnífur var kominn á loft...en svo keyrir lögrglubíll fram hjá og ræningjagengið tvístraðist...ég þakka fyrir að hafa ekki verið stunginn þarna, manni er alltaf kennt að vera ekki með mótþróa en sluppum með skrekkinn þarna.
Georg P Sveinbjörnsson, 6.6.2007 kl. 13:51
Georg P Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 12:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.