Færsluflokkur: Bloggar

Eru hæðar rárnar slysagildrur eða öryggistæki - eins og gengið er frá þeim núna? -Getur gatnamálastjóri svarað því t.d. á síðum Mbl.?

Það hefur oft sótt á huga minn slysið sem varð um daginn þegar vörubíll með ófrágengnum krana lenti á hæðar rá með þeim afleiðingum að hún féll niður á götu og lenti þar á bílum og stórskemmdi þá, en til allrar hamingju urðu engin slys á fólki - um andlegan skaða skal ósagt látið!
     Ég hef margoft horft á þessar rár og mér hefur alltaf fundist sem þær hangi uppi svipað og hástökks rár gera, nema hvað vírar eru festir við þær eftir endilöngu og hef ég staðið í þeirri trú, með sjálfum mér, að þessir vírar séu ekki hluti af upphengi búnaði ránna heldur eigi þeir að koma í veg fyrir að þessar rár detti í jörðina - ef há ökutæki rekast á þær.
      Ég hef haldið, án þess að hafa nokkuð fyrir mér í því, að markmiðið með þessum rám sé að rekist há ökutæki á þær, falli þær af uppistöðum sínum og hangi síðan í vírunum og hafi þar með gegnt hlutverki sínu, að vara bílstjóra þessara ökutækja við áður en bifreið þeirra og jafnvel tengivagn lendir á brún sem framundan er - í svipaðri hæð og ráin.
     Þessar brýr þjóna oftar en ekki umferð fólks, hvort sem hún er gangandi, hjólandi eða akandi, og er þar með komið í veg fyrir stórslys á fólki sem á viðkomandi brú er.

     EIGA RÁRNAR AÐ FALLA TIL JARÐAR EÐA HANGA Í VÍRUNUM?

    Þetta er í hnotskurn, það sem átt hefur sér stað í huga mínum í sambandi við þessar rár, og veit ég ekki hvort ég hef eitthvað til míns máls eður ei.
    Eigi rárnar að falla til jarðar eftir að hátt ökutæki rekst á þær er mér spurn hvort líf og limir þeirra sem aka á akbrautum, sem liggja undir slíkar rár, sé í minni metum hjá ráðamönnum, en líf þeirra sem á brúnum eru og rárnar eru að öllum líkindum hafðar til að verja.
    Þar sem ég ætla ráðamönnum ekki að svo sé, langar mig mikið til að vita hvað hafi gerst í þessu óhappi um daginn og orðið til þess að ráin féll á akreinarnar fyrir neðan og einnig að fólk sé upplýst um hver tilgangur þessara ráa sé og á hvern hátt þær eigi að sinna sínu hlutverki.
    
       HVAÐ GERÐIST?

     Þegar þessi umrædda vörubifreið með ófrágengna krananum lenti á ránni féll hún alla leið niður á akbrautirnar og stórskemmdi bifreiðar sem þar voru.
     Ég ætla að sú spurning brenni á mörgum hvort bílstjórar geti átt von á að þessar hæðar rár eigi eftir að fljúga út í loftið þegar ekið er á þær af háum og hátt lestuðum ökutækjum.
    Á það virkilega að vera staðreynd til frambúðar, eftir að þetta óhapp varð, að akreinar fyrir aftan há ökutæki séu auðar marga kílómetra fyrir aftan og jafnvel til hliðar við það, sökum hræðslu ökumanna við að fá fljúgandi rá yfir akreinarnar?
     Er hér um hönnunargalla, framleiðslugalla, uppsetningar galla eða einstaklega óheppilegt atvik að ræða, sem varð til þess að ráin féll alla leið niður á bílana í þessu ákveðna tilfelli?  Eða er þetta eðlileg uppákoma sem allir ökumenn geta átt von á?

Ómaklega gengið framhjá Ástu Möller

   Ásta Möller Mér finnst með ólíkindum að Geir Hilmar Haarde skuli hafa gengið framhjá Ástu Möller í vali sínu á ráðherra heilbrigðismála.
    Ásta hefur gengt tiltölulega löngu og farsælu þingmannsstarfi, ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðast en ekki síst hefur hún víðtæka þekkingu á sviði heilbrigðismála og er sérmenntuð sem stjórnsýslufræðingur. Þetta tvennt getur ekki verið betri grunnur fyrir ráðherradóm.

   Ásta er menntaður hjúkrunarfræðingur og býr yfir mikilli reynslu af því að starfa sem slíkur. Hún hefur gengt trúnaðarstörfum fyrir Félag Íslenskra Hjúkrunarfræðinga og er þar með talið formannsstarf hennar fyrir félagið - Hún hefur verið í ritstjórn félagsblaðs þeirra - ef ekki ritsjóri (sem mig minnir helst!).
    Það sem mér finnst einnig vega þungt, er reynsla hennar af löngum og ýtarlegum undirbúningi, í samvinnu við erlenda aðila, að byggingu hátækni sjúkrahúss.

    Ég hef örugglega gleymt eitthverju af reynslu hennar og þekkingu á heilbrigðismálum enda kann ég ekki ferilskrá frúarinnar utan að.

                            Í  LÍKAMSRÆKT TIL ÁGÚSTU?

    Ég ætla svo sannanlega að Ásta Möller hafi mörghundruð kílómetra forskot á Guðlaug Þór og það er því, að mínu mati, alger vanhugsun hjá Geir að setja Guðlaug í þetta embætti, sem ég ætla að sé eingöngu vegna útkomu úr prófkjöri sem ég hef löngu gleymt.
     Guðlaugur Þór er að mínu mati hinn vænsti piltur - það sem ég hef séð til hans - og samkvæmt bloggsíðu Jónínu Ben vel giftur (gott hjá Jónínu að vinna sér inn punkta hjá Ágústu!) og hinn efnilegasti í alla staði, en vantar tilfinnanlega reynslu bæði af þingmennsku og heilbrigðismálum - nema þá helst líkamsrækt.
     Hann kemur sennileg til með að reyna að fækka sjúkum og þar með innlögnum með þeirri fyrirbyggjandi aðgerð að senda sem flesta í líkamsrækt - til Ágústu?
Whistling


Það getur verið lífshættulegt að hafa ekki hús merkt númeri sínu - hvort sem það er þitt eigið eða þar sem þú ert gestkomandi

     Ég lenti í því fyrir skömmu, að þurfa að koma á tilsettum tíma á mikilvægan fund í nýlegu hverfi í Hafnarfirði og því var mér hugsað til þess þegar ég var læknanemi að störfum ásamt Guðmundi Ólafssyni, heitnum, lækni á bíl Læknavaktarinnar sf. Náði þjónustusvæðið þá yfir allt Stór- Reykjavíkur svæðið.

     Starfið felst enn, eins og flestir vita, í því að vitja sjúkra á heimilum þeirra þar sem þeir treysta sér ekki til að leita sér aðstoðar sjálfir eða að viðkomandi þarfnast þjónustu læknis tafarlaust.

    Bílstjórar okkar voru oftast þaulvanir leigubifreiðastjórar sem voru ótrúlega fundvísir á heimili skjólstæðinga okkar sem oft á tíðum voru í bakhúsi þar sem jafnvel þurfti að ganga í gegnum nýrra hús til að komast inn í bakhúsið - eða að viðkomandi bjó í iðnaðarhverfi þar sem útbúið var íbúðarhúsnæði.

    Hús í þessum hverfum eru oftar en ekki án númera og nafn götunar stundum einhverjum kílómetrum frá húsnæðinu sem við þurftum að komast í.

    Oft á tíðum var það hin mesta gestaþraut að finna þá sem höfðu leitað hjálpar.

    Að sjálfsögu tafði þetta starf okkar til muna og bitnaði að sjálfsögðu á þeim sem biðu þjónustu okkar og einnig hinna sem voru með hús sín og híbýli vel merkt.

 

LEITIN AÐ INNGANGINUM TÓK ÞRISVAR SINNUM LENGRI TÍMA EN AKSTURINN Á STAÐINN 

 

   Slælega merkt íbúðarhúsnæði olli verulega alvarlegu vandamáli þegar hringt var og samkvæmt innhringingunni mátum við ástand viðkomandi þannig að við þyrftum að komast á staðinn eins fljótt og hægt var. Til þess að komast á staðinn sem fyrst voru fyrstu viðbrögð meðal annars að aka þangað með forgangsakstri - það er með sírenur og blikkljós í gangi, og í framhaldi af honum að hlaupa að íbúð viðkomandi, sem ég minnist eitt sinn að inngangurinn var frá litlum garði, í gegnum þvottahús og inn í jarðhæðina.

    Þetta var nokkuð sem alltof oft beið okkar og orsakaðist stundum vegna þess að númerið snéri út að götunni en aðalinngangurinn var hinu megin við húsið.
 

„RÍKISSKILTIГ

   Það reyndist oft þrautinni þyngri að finna viðkomandi í viðkomandi vistarveru, til dæmis vegna þess að:

  • um einhvers konar bakgötu var að ræða sem hún var við, götu á nýbyggingasvæði, götu sem var í einu af þessum flóknu hverfum með mikið af einstefnu og blind götum eða götu sem hreinlega var ekki merkt einhverra hluta vegna.
  • húsið sem hún var í bar eigið nafn og ekkert númer.
  •  að vandamálið var oft á tíðum ekki alveg úr sögunni þó húsið væri fundið, því þá átti eftir að finna réttan inngang. Þó merking hans væri kannski góð þá snéri hún stundum frá aðkeyrslunni að húsinu þannig að númerið sást alls ekki úr bílnum.
  • oft á tíðum, sérstaklega í eldri hverfum borgarinnar, þar sem garðurinn snéri að götu var númerið torséð vegna trjáa sem birgðu sýn og í þokkabót var númerið oft af hinni fornu gerð, það er lítið, ferhyrnt, dökkblátt með hvítri tölu. Þessar númeraplötur voru tilkomnar fyrir mína fæðingu, á sjöunda áratugnum og örugglega  upprunnar í einhverri ríkisverksmiðju og átti sennilega að vera hin staðlaða ríkishúsnúmeraplata. Þessar plötur höfðu flestar þjónað út sinn tíma og voru orðnar það ryðgaðar að númerið var ekki lengur læsilegt eða það illlæsilegt að fara þurfti út úr bílnum, hlaupa að húsinu til að lesa af skiltinu, en slík vinnubrögð áttu ekki að vera inn í myndinni undir neinum kringumstæðum og þá allra síst þegar um neyðarútkall var að ræða.
  • vandræðunum var oft ekki lokið þó réttur inngangur var fundinn ef um fjölbýlishús var að ræða. Þegar inn var komið voru bjöllurnar oft svo illa merktar að rétt íbúð hefði verið vandfundin ef við hefðum ekki haft lýsingu á staðsetningu íbúðarinnar frá skiptiborði Vaktarinnar.

   Ég ætla að þetta ástand sé algerlega óviðunandi þar sem hver mínúta skiptir máli þegar neyðarástand hefur skapast hvort heldur það eru bráðasjúkdómar, slys, eldsvoðar, lekar hvers konar eða annað það sem kallar á að komast verður á staðinn eins fljótt og hægt er. Hugsið um allar þær verslanir og bakhús sem standa við Laugaveginn og einhver fær hjartaáfall, heilablóðfall eða þaðan af verri sjúkdóm í þessum ómerktu húsum.

VERSLANA OG FYRIRTÆKJAGÖTUR VERSTAR

    Undirritaður hefur oft hugsað um þessa reynslu sína þegar hann hefur, í miklu tímahraki, þurft að leita að fyrirtæki, eða einstaklingum í götum eins og til dæmis Ármúla, Síðumúla, Suðurlandsbraut, Grensásvegi, Hverfisgötu, Laugavegi og mörgum öðrum svipuðum götum.

    Það segir sig sjálft að það hlýtur að skapa aukið öryggi að hægt sé að veita hjálp eins fljótt og auðið er fyrir þá sem eru í bráðri lífshættu einhverra hluta vegna eða verðmæti, sem liggja undir skemmdum.

     Það er því ódýr trygging fólgin í því að hafa öll hús og híbýli vandlega merkt þannig að auðvelt sé að veita aðstoð þegar vá ber að höndum svo ekki sé talað um þegar færð er slæm, myrkur og veður válynd.


SJÁIÐ MYNDBROTIÐ SEM ER HÉR Á SÍÐUNNI - ÞAÐ ÆTTI AÐ VERA SKYLDUÁHORF!

     Ég vaknaði á mínum vanalega tíma eða þegar klukkuna vantaði um tuttugu mínútur í sjö.
     Þegar ég var klæddur og komin á ról fann ég skyndilega fyrir einhverri ógleðitilfinningu, en hugsaði með mér að hún hlyti að hverfa jafn skjótt og hún kom.
    Ég byrjaði að lesa yfir þær blogg færslur sem ég hafði misst af og rakst á síðu Yngva Harðarsonar sem bar yfirskriftina „HRAÐAKSTUR“.
    Ég skellti mér inná síðuna og sá þá hvar hann lumaði á myndbandsbroti.
 
ÓGLEÐIN SNARVERSNAÐI

    Eftir að hafa horft á það snarversnaði ógleðin um leið og ég hugsaði að þetta ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem eru í þann mund að fá ökuréttindi og einnig fyrir lengra komna, sem eru búnir að koma sér upp falskri öryggiskennd og hugsun sem hljóðar á þá leið að ekkert komi fyrir þá - samhliða því að stöðugt er verið að framleiða öflugri og hraðskreiðari ökutæki, sem eru ekkert annað en freistingin ein, að aka hratt, samanber hraðamyndavélina sem komið var fyrir í Vesturbænum og náði hún mynd og mældi um 140 ökutæki á ólöglegum hraða á tiltölulega skömmum tíma - þetta hlýtur að segja okkur eitthvað!!!
 
KAPPAKSTUR AF GÖTUNUM

    Tengilinn að myndbandinu fékk ég á síðunni hans Yngva og vona ég að hann sé sáttur við það. Mér brennur bara svo mikið á hjarta að koma skikki á þessa hluti og ítreka enn og aftur hættuna við hraðakstur, svo ekki sé talað um kappakstur á vegum fyrir almenning. Þess vegna lagði ég á mig sextánára að vinna í sjálfboðavinnu ásamt öðrum við að koma upp kvartmílubraut í Kapelluhrauninu við Straumsvík, TIL AÐ KOMA KAPPAKSTI AF GÖTUNUM og á þar til gerða braut.     
    Við sem voru í Kvartmíluklúbbnum stóðum einnig fyrir sandspyrnum við Ölfusárósa þannig að ökumenn öflugra bíla, mótorhjóla og heimasmíðaðra ökutækja gætu fengið útrás fyrir þessar hvatir sínar og pústað út:)
   
    Tengill að myndbandinu er hér að neðan og er bara að tví smella á tengilinn til að sjá myndbrotið:
 
http://www.youtube.com/watch?v=DEDjfxzec0Q


    Skilaboð myndarinnar eru skýr:   

EFTIR ÞVÍ SEM HRAÐIN ER MEIRI VERÐUR SKAÐINN MEIRI!!!

- ef eitthvað fer úrskeiðis
 
 
    
    P.s. Endilega skrifið í athugasemdir hvernig þið upplifðuð þetta myndbrot. Það væri fróðlegt og mynd koma öðrum til að hugsa!
           Með fyrirfram þökk!!!

SETJIÐ X FRYRIR FRAMAN LISTABÓKSTAFINN D

   Hversvegna? svarið er einfallt. Haldið þið að öll þessi sprota fyrirtæki sem nú eru orðin að stórveldi Össur, Bakkavör... og endalaust fleiri ásamt einyrkja fjárfestum sem nú eru orðnir miljarðamæringar hefðu orðið til í umhverfi sem vinstri stjórn býr gjarnan til sem einkennist af höftum og fyrirhyggjupólitík? Nei!!!

   Fyrirgefið hvað þetta er stutt núna. Verð að þjóta til að leggja mitt af mörkum til að viðhalda hagsældinni. Útskýri betur það sem ég á við fljótlega.    xD
 


AUSTURBLOKKIN,MAFÍAN, SPILLING, GEFUM „SKÍT“ í ÖNNUR RÍKI, GRÆÐA Á SMS LANDANS? TVÆR KEPPNIR, ÖRUGGUR DAUÐDAGI, OFL.

 421433A

    Það kom enn einu sinni í ljós í gærkvöldi að Austurblokk Evrópu stendur þétt saman ásamt flestum Miðevrópuríkjunum - það er ríkjum frá fyrrum Sovétríkjunum og Júgóslavíu.
    Þessar þjóðir eru orðnar ansi margar eftir að Sovétríkin og Júgóslavía liðuðust í sundur. Íbúar þessara sjálfstæðu landa telja milljónir hvert og þeir hringja úr „ríkisfarsímunum“ sínum, gegn lágu eða engu gjaldi, til að gefa nágrönnum eða öðrum fyrrverandi austantjalds ríkjum atkvæði sín, að þeim löndum undanskildum, sem alltaf hafa verið „alræðisvaldinu“ í Moskvu ljár í þúfu eins og Eystrasaltslöndin hafa verið - sérstaklega Eistland.

    AÐ GRÆÐA Á SÍMAKOSNINGU LANDANS

    Það er með ólíkindum að reynt sé að græða á íslensku þjóðinni með því að rukka hana um tæpar hundrað krónur fyrir hvert smáskilaboð (sms), sem hver Íslendingur sendir.
    Mig langar í fávisku minni að vita hvert þessir peningar fara - en að sjálfsögðu lenda þeir fyrst í höndum eigenda símafyrirtækjanna, sem að öllum líkindum hirða gróðann - alla vega hefur mér ekki borist neitt annað til eyrna og vildi svo sannanlega fá að vita að ég hafi ekki rétt fyrir mér.
     Mér finnst að á þessu kvöldi hefðu þessi smáskilaboða sendingar átt að vera svo til fríar, eða á kostnaðarverði, þannig að símafyrirtækin bæru ekki kostnað af þessari uppákomu.
    Einhver kann að segja að Íslendingar séu aðeins um 300 þúsund og vægi þeirri í svona símakosningu hljóti að vera lítið, en ég svara því til, að gróflega áætlað sé þriðjungur þessarar tölu börn, sem hvorki eiga, né hringja úr farsíma. Annar þriðjungur séu aldraðir, en ég ætla að stór hluti þeirra séu ekki mjög vanir smáskilaboða sendingum (samanber mig sem sendi helst ekki sms nema ég geti skrifað það á tölvuna mína á heimasíðu símafyrirtækjanna).
    Við komumst því að þeirri niðurstöðu að um hundrað þúsund farsíma eigendur hafi haft möguleika á að kjósa, þetta umrædda gærkvöld og borga fyrir það, að mínu mati dýrum dómi.
    Það fyrirkomulag að áhorfendur kjósi á þennan hátti er að mínum mati nokkuð sem greinilega er ekki að virka eins og það á að gera!

    ÞAU 10 LÖG SEM KOMUST Í ÚRSLIT AF 28 VORU AUSTUR EVRÓPSK

    Svo til undantekningalaust þar sem peningar koma við sögu virðist alltaf einhver spilling grassera og á þetta sérstaklega við um ríki sem eiga sér ekki langa hefð og þar sem mikill óstöðugleiki er í stjórnarfari hjá, sem sést gleggst hjá mörgum Afríkuríkjum. Þetta lögmál er jafn virkt og lögmálið „Á eftir bolta kemur barn“.
     Eiríkur sagði að Austur Evrópulöndin væru búin að kaupa keppnina og afskipti Austur Evrópsku mafíunnar hefðu ráðið úrslitum.

      HLÝTUR HRAÐANN EN ÖRUGGANN DAUÐDAGA

     Ég stóð mig að því að hafa ósjálfrátt látið neðri kjálkann síga niður á bringu, þegar tilkynnt var hvaða lög kæmust áfram, þrátt fyrir að mín betri vitund hefði sagt mér annað.
Öll lögin sem ég hafði gefið fæst stig á mínum „prívat“ lista, að hinu Ungverska blúslagi undanskildu, komust áfram.
     Ef flest Vestur Evrópulöndin detta öll út úr aðalkeppninni, er mjög líklegt að kostunar og auglýsinga aðilar missi áhugann á keppninni og er þá nokkuð víst að þessi „keppni“ (sem fer að verða orðskrípi í þessu samhengi) hljóti frekar hraðan og öruggan dauðdaga.
    Það er deginum ljósara að stokka verður upp skipulag þessa viðburðar, til að gera hann spennandi fyrir alla og keppt sé á jafnréttis grundvelli, samanber þá reglubreytingu sem fól í sér að þjóðir máttu syngja á annarri tungu en þeirra móðurmáli, það er alheimsmálinu ensku sem flestir skildu. Þá jöfnuðust til muna mögluleikar þeirra þjóða sem höfðu ensku
ekki að móðurmáli versus Íra, Skota og Breta, sem hættu að vera áskrifendur að efstu sætunum, að vinnings sætinu meðtöldu.
     Með því að ríki Austur Evrópu urðu sjálfstæð bættust þau við sem þátttakendur í keppninni hvert af öðru.

    Nú bregður svo við að þessi ríki eru að vaxa Vestur Evrópuríkjunum yfir höfuð og vestrænir þátttakendur, samanber Eirík Hauksson sem fullyrðir að mafían, sem tekið hefur sér bólfestu í Austur Evrópu ríkjunum, hafi skipulagt óeðlilegt samráð þessara ríkja með einhverjum hætti.
   Ég held að mafían geti haft áhrif á almenning þessara ríkja hvort sem þeir uppskera hræðslubandalag eða að áhrifamenn taki við mútugreiðslum frá þessum mafíuhreyfingum.

     HVAÐ ER TIL RÁÐA?

     Eiríkur hvetur fólk til að kjósa Finna eða Svía á laugardaginn og gefa „skít“ í aðra - svo hans orð séu notuð.
     Það er mín skoðun að greinilegt sé að um tvennt sé að ræða í framhaldi af þessari hörmulegu „söngvakeppni“.

    Í fyrsta lagi, að núverandi fyrirkomulag verði stokkað upp frá grunni, þannig að á einhvern hátt verði komið í veg fyrir flokkadrætti og hvað þá blokka myndanir, þar sem listrænt gildi lagana og flutningur þeirra sé virtur og í annan stað að peningaöfl geti ekki ráðið því hverjir styðja hvern, og í þriðja lagi að þessari uppákomu - sem ber heitið „Eurovision söngvakeppnin“ verði hreinlega klofin í tvennt, og tvær keppnir verði annars vegar fyrir Vestur Evrópu  og hins vegar Austur Evrópu.
     Það er deginum ljósara, í mínum kolli, þar sem mér er málið nokkuð skylt og ég hef nokkra innsýn inn það sem ég er að tala um, að þeir sem hafa búið í þessum Austantjalds ríkjum á dögum Kalda stríðsins hafa gjörólíkan smekk fyrir tónlist en Vestur Evrópubúar, svo ekki sé talað um klæðaburð og annað.
     Það er einnig deginum ljósara, að eftir langan og erfiðan aðskilnað þessara ríkja þá þurfa þau langan tíma til aðlagast lifnaðarháttum, siðum, venjum og smekk hverra annarra og þess vegna verðum við að gera eitthvað róttækt í að breyta fyrirkomulagi þessarar keppni, sem við í Vestur Evrópu höfum setið einir að, í um hálfa öld!!!

       


ERU TEXTAVÉLARNAR BILAÐAR?


    Í öllum þeim umræðuþáttum sem farið hafa fram í Sjónvarpinu og á Stöð 2, finnst mér vanta tilfinnanlega texta sem birtir nafn og jafnvel stuttar upplýsingar um viðkomandi viðmælanda.
Hér á árunum áður var þetta ofnotað, en nú þegar tækninni hefur fleygt fram á ljóshraða þá hlýtur að vera auðvelt að koma þessu við, án þess að það dynji á áhorfendum allan þáttinn.
    Ég skil vel að passa verður uppá að nafn hvers viðmælanda sé ekki birt lengur eða skemur en annarra.
Meginatriðið er að áhorfendur viti hverjir það eru sem sitja fyrir svörum!

FÓLK TALAR HVERT OFAN Í ANNAÐ

    Oft vill það brenna við að einn eða fleiri viðmælendur grípa sífellt fram í þegar sá sem spurður var er að svara.
    Þetta hvimleiða athæfi er ekki eingöngu ókurteisi viðmælendanna að kenna, heldur verður það einnig að skrifast á reikning stjórnenda þáttanna, sem eiga að tryggja að allir fái að ljúka máli sínu óáreittir.
    Ég ætla að áhorfendur geri þá lágmarkskröfu að fyrst og síðast verði þátttakendur í umræðuþáttum að virða almenna kurteisi!
    Sá kjaftavaðall sem nú tröllríður öllu, gerir það að verkum að minnsta kosti ég, heyri í hvorugum viðmælandanum - og tel ég mig vera með dágóða heyrn - hvað þá þeir sem heyrnin er farin að daprast hjá?
    Oft er tveimur spyrlum stillt upp á móti einum viðmælanda (t.d hið fræga Davíðsviðtal) og bera þeir fram spurningar jafn hratt og skot ríða af úr vélbyssu, þannig að ekki eitt einasta svar viðmælandans lítur dagsins ljós og áhorfendur eru jafnnær þegar þættinum lýkur - en slíkt athæfi er ekkert skárra en það fyrrnefnda.
  Ég vona svo innilega að bætt verði úr þessum atriðum hið fyrsta!

P.s. Ég ætlaði að viðra þessar athugasemdir mínar mikið fyrr, en það eru örugglega margir þættir um stjórnmál eftir fram að kosningum og í kjölfar þeirra - og einnig umræðuþættir um hin fjölbreytilegustu hitamál í framtíðinni.



VOPN VORU AFHENT ÖLLUM FARÞEGUM UM BORÐ Í VÉLINNI


    Ég hitti góðan kunningja minn, lækni á besta aldri, á förnum vegi og báru ferðamál á góma, eins og svo oft áður, þar sem mér eru þau ekki alveg óskyld og hann mikil áhugamaður um slík málefni.
    Þegar við höfðum lokið okkur af að ræða kostinn um borð í vélum flestrar flugfélaga sem við höfðum flogið með nýlega, þá sagði hann hugsi og svona eins og uppúr þurru að hann hafi flogið ekki alls fyrir löngu, með Emerald flugfélaginu í Boing 737-800 flugvél félagsins, sem er fullvaxin vél og getur tekið allt að 189 farþega.
    Hann sagði að vopnaleitin hafa verið gífurleg og öryggisverðirnir hafi tekið allt frá litlum naglaþjölum, litlum skærum og viðlíka dóti til stærri muna, af farþegum áður en þeim var hleypt um borð.
    Það er skemmst frá því að segja að þegar leið á flugið var borin fram hvorki meira né minna en glæsileg, þrírétta máltíð og hvað annað en stál hnífapör voru á hverjum bakka til að farþegarnir gætu komið matnum á mannsæmandi hátt í andlitið á sér.
    Mínum manni fannst þetta í meira lagi öfugsnúið að allir málmhlutir sem hugsanlega hefði mátt nota sem ógn til að framkvæma flugrán eða annan óhæfu verknað hefðu samviskusamlega og kerfisbundið verið teknir af farþegum, en þeim síðan færð með virktum ennþá hættulegri áhöld en gerð höfðu verið upptæk fyrir flugið, það er stálhnífur með góðu biti og stálgaffall með oddhvössum tindum, á plastbakka (silfurfati)!!!
    Manni verður því óhjákvæmilega spurn hvort þetta viðgangist hjá fleiri flugfélögum!


ELSTI ÍSKÁPUR Í HEIMI ER EKKI Í BRETLANDI HELDUR Á ÍSLANDI

     Þegar ég fletti föstudags eintaki Blaðsins rakst ég á grein sem bar yfirskriftina „FIMMTÍU ÁRA ÍSSKÁPUR“. Þar var greint frá því að hin breska Sally Garrod státaði af því að eiga elsta ísskáp í heimi sem enn er í notkun. Einnig kom þar fram að skápurinn hafi verið keyptur af  móður hennar  árið 1957 og að hún hafi gefið Sally skápinn góða, sem er af Prescold-gerð og bresk smíð, fyrir tuttugu árum.
    Þarna segir jafnframt að ísskápurinn hafi aldrei, á sínum langa líftíma, bilað þó svo að virkni hans nú sé ekki í líkingu við það sem hún er þegar hann var nýr.
      „Hurðin á frystihólfinu er brotin af, ljósið inn í honum hefur slokknað og það þarf að affrysta hann ansi reglulega.“ sagði Sally við breska fjölmiðla, en tók það þó fram að hún vildi ekki fyrir nokkurn mun missa skápinn.

    VARÐ HUGSAÐ TIL SKÁPSINS Í SUMARBÚSTAÐNUM


    Þegar ég las þessa grein þá var mér hugsað til ísskápsins sem foreldrar mínir hafa haft í sumarhúsi sínu sem var byggt árið 1968.
    Ísskápurinn er enn í fullri notkun, ljósið inni í honum lýsir vel, sjaldan þarf að affrysta hann og ef hann er settur á köldustu stillingu, þá á hann það til að frysta það sem er næst varmaskiptinum (elementinu) og einnig það sem er viðkvæmt fyrir kulda.
    Ég kom að máli við móður mína og spurði hana nánar út í sögu ísskápsins. Hún sagðist hafa, ásamt móður sinni, keypt skápinn nýjan árið 1957, hann sé Amerískur af Philco gerð og hafi verið fluttur inn frá Bandaríkjunum. Innflutningur þaðan hafi á þeim árum alltaf tekið nokkuð langan tíma, þannig að framleiðslu ár hans sé að öllum líkindum 1956 - ef ekki fyrr.
    Þær mæðgur keyptu hann til að hafa í íbúð sinni, sem þær höfðu nýlega eignast, þangað til móðir mín gifti sig og hóf búskap með föður mínum árið 1962, en þá hafi skápurinn fylgt með í nýja íbúð sem þau þrjú fluttu í, en það var um mína fæðingu.

LÍKLEGA ELSTI ÍSSKÁPUR Í HEIMI


    Hann var í þjónustu fjölskyldunnar í þeirri íbúð allt til ársins 1971 þegar fjölskylda mín flutti í stærri íbúð, en þá hafði fjölgað í fjölskyldunni og fest voru kaup á stærri ísskáp.
    Gamli skápurinn var fluttur uppí sumarbústað, en þau áttu það til að dvelja þar langdvölum á sumrin, þegar faðir minn hóf að taka sér lengri sumarfrí. Þau fóru fljótlega að sakna þess að hafa ekki ísskáp þar og því var kærkomið að fá gamla skápinn þangað, þar sem hann er enn.
    Að þessu sögðu má ætla að ísskápurinn fyrir austan sé mjög líklega eldri en ísskápur frú Garrod og því líklega elsti ísskápur í heimi sem enn er í notkun - ef taka má mark á staðhæfingum bresku pressunnar um breska skápinn. Til viðbótar lítur út fyrir að sá íslenski sé í mun betra ásigkomulagi en sá breski - enda Amerískur!


OLÍUBÍLSTJÓRI ÚTI AÐ AKA?

Skyldi olíubílstjórinn sem ók Öxnadalsheiðina fyrir skömmu með tengivagninn sinn hafa verið algerlega úti að aka áður en vagninn valt. Samkvæmt lögregluþjónunum sem komu á staðinn mældu þeir tæplega hálfs kílómeters löng för á malbikinu eftir tengivagninn áður en hann valt.

Ekki veit ég hvað olli þessum förum, en samkvæmt meiraprófs fræðum sem undirritaður lagði stund á fyrir allöngu og reynslu sinni af akstri stórra ökutækja þá fara hemlar tengivagns sjálfkrafa á ef þrýstingur á vökvakerfi (glussakerfi) hans fellur-af einhverjum orsökum. Út frá þeirri staðreynd má ætla að olíubíllinn hafi dregið vagninn með hemlunum á í þennan hálfa kílómetra áður en vagninn valt, en miklir kraftar hljóta að hafa valdið því.

Minna má nú verða var við en að draga mikið rásandi risatengivagn með hemlunum á, sprungið dekk eða hvað annað þetta langa leið. Því er mér spurn hvar blessaður bílstjórinn hefur haft hugann þegar hann var að aka um þessa fallegu sveit!

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband