AUSTURBLOKKIN,MAFÍAN, SPILLING, GEFUM „SKÍT“ í ÖNNUR RÍKI, GRÆÐA Á SMS LANDANS? TVÆR KEPPNIR, ÖRUGGUR DAUÐDAGI, OFL.

 421433A

    Það kom enn einu sinni í ljós í gærkvöldi að Austurblokk Evrópu stendur þétt saman ásamt flestum Miðevrópuríkjunum - það er ríkjum frá fyrrum Sovétríkjunum og Júgóslavíu.
    Þessar þjóðir eru orðnar ansi margar eftir að Sovétríkin og Júgóslavía liðuðust í sundur. Íbúar þessara sjálfstæðu landa telja milljónir hvert og þeir hringja úr „ríkisfarsímunum“ sínum, gegn lágu eða engu gjaldi, til að gefa nágrönnum eða öðrum fyrrverandi austantjalds ríkjum atkvæði sín, að þeim löndum undanskildum, sem alltaf hafa verið „alræðisvaldinu“ í Moskvu ljár í þúfu eins og Eystrasaltslöndin hafa verið - sérstaklega Eistland.

    AÐ GRÆÐA Á SÍMAKOSNINGU LANDANS

    Það er með ólíkindum að reynt sé að græða á íslensku þjóðinni með því að rukka hana um tæpar hundrað krónur fyrir hvert smáskilaboð (sms), sem hver Íslendingur sendir.
    Mig langar í fávisku minni að vita hvert þessir peningar fara - en að sjálfsögðu lenda þeir fyrst í höndum eigenda símafyrirtækjanna, sem að öllum líkindum hirða gróðann - alla vega hefur mér ekki borist neitt annað til eyrna og vildi svo sannanlega fá að vita að ég hafi ekki rétt fyrir mér.
     Mér finnst að á þessu kvöldi hefðu þessi smáskilaboða sendingar átt að vera svo til fríar, eða á kostnaðarverði, þannig að símafyrirtækin bæru ekki kostnað af þessari uppákomu.
    Einhver kann að segja að Íslendingar séu aðeins um 300 þúsund og vægi þeirri í svona símakosningu hljóti að vera lítið, en ég svara því til, að gróflega áætlað sé þriðjungur þessarar tölu börn, sem hvorki eiga, né hringja úr farsíma. Annar þriðjungur séu aldraðir, en ég ætla að stór hluti þeirra séu ekki mjög vanir smáskilaboða sendingum (samanber mig sem sendi helst ekki sms nema ég geti skrifað það á tölvuna mína á heimasíðu símafyrirtækjanna).
    Við komumst því að þeirri niðurstöðu að um hundrað þúsund farsíma eigendur hafi haft möguleika á að kjósa, þetta umrædda gærkvöld og borga fyrir það, að mínu mati dýrum dómi.
    Það fyrirkomulag að áhorfendur kjósi á þennan hátti er að mínum mati nokkuð sem greinilega er ekki að virka eins og það á að gera!

    ÞAU 10 LÖG SEM KOMUST Í ÚRSLIT AF 28 VORU AUSTUR EVRÓPSK

    Svo til undantekningalaust þar sem peningar koma við sögu virðist alltaf einhver spilling grassera og á þetta sérstaklega við um ríki sem eiga sér ekki langa hefð og þar sem mikill óstöðugleiki er í stjórnarfari hjá, sem sést gleggst hjá mörgum Afríkuríkjum. Þetta lögmál er jafn virkt og lögmálið „Á eftir bolta kemur barn“.
     Eiríkur sagði að Austur Evrópulöndin væru búin að kaupa keppnina og afskipti Austur Evrópsku mafíunnar hefðu ráðið úrslitum.

      HLÝTUR HRAÐANN EN ÖRUGGANN DAUÐDAGA

     Ég stóð mig að því að hafa ósjálfrátt látið neðri kjálkann síga niður á bringu, þegar tilkynnt var hvaða lög kæmust áfram, þrátt fyrir að mín betri vitund hefði sagt mér annað.
Öll lögin sem ég hafði gefið fæst stig á mínum „prívat“ lista, að hinu Ungverska blúslagi undanskildu, komust áfram.
     Ef flest Vestur Evrópulöndin detta öll út úr aðalkeppninni, er mjög líklegt að kostunar og auglýsinga aðilar missi áhugann á keppninni og er þá nokkuð víst að þessi „keppni“ (sem fer að verða orðskrípi í þessu samhengi) hljóti frekar hraðan og öruggan dauðdaga.
    Það er deginum ljósara að stokka verður upp skipulag þessa viðburðar, til að gera hann spennandi fyrir alla og keppt sé á jafnréttis grundvelli, samanber þá reglubreytingu sem fól í sér að þjóðir máttu syngja á annarri tungu en þeirra móðurmáli, það er alheimsmálinu ensku sem flestir skildu. Þá jöfnuðust til muna mögluleikar þeirra þjóða sem höfðu ensku
ekki að móðurmáli versus Íra, Skota og Breta, sem hættu að vera áskrifendur að efstu sætunum, að vinnings sætinu meðtöldu.
     Með því að ríki Austur Evrópu urðu sjálfstæð bættust þau við sem þátttakendur í keppninni hvert af öðru.

    Nú bregður svo við að þessi ríki eru að vaxa Vestur Evrópuríkjunum yfir höfuð og vestrænir þátttakendur, samanber Eirík Hauksson sem fullyrðir að mafían, sem tekið hefur sér bólfestu í Austur Evrópu ríkjunum, hafi skipulagt óeðlilegt samráð þessara ríkja með einhverjum hætti.
   Ég held að mafían geti haft áhrif á almenning þessara ríkja hvort sem þeir uppskera hræðslubandalag eða að áhrifamenn taki við mútugreiðslum frá þessum mafíuhreyfingum.

     HVAÐ ER TIL RÁÐA?

     Eiríkur hvetur fólk til að kjósa Finna eða Svía á laugardaginn og gefa „skít“ í aðra - svo hans orð séu notuð.
     Það er mín skoðun að greinilegt sé að um tvennt sé að ræða í framhaldi af þessari hörmulegu „söngvakeppni“.

    Í fyrsta lagi, að núverandi fyrirkomulag verði stokkað upp frá grunni, þannig að á einhvern hátt verði komið í veg fyrir flokkadrætti og hvað þá blokka myndanir, þar sem listrænt gildi lagana og flutningur þeirra sé virtur og í annan stað að peningaöfl geti ekki ráðið því hverjir styðja hvern, og í þriðja lagi að þessari uppákomu - sem ber heitið „Eurovision söngvakeppnin“ verði hreinlega klofin í tvennt, og tvær keppnir verði annars vegar fyrir Vestur Evrópu  og hins vegar Austur Evrópu.
     Það er deginum ljósara, í mínum kolli, þar sem mér er málið nokkuð skylt og ég hef nokkra innsýn inn það sem ég er að tala um, að þeir sem hafa búið í þessum Austantjalds ríkjum á dögum Kalda stríðsins hafa gjörólíkan smekk fyrir tónlist en Vestur Evrópubúar, svo ekki sé talað um klæðaburð og annað.
     Það er einnig deginum ljósara, að eftir langan og erfiðan aðskilnað þessara ríkja þá þurfa þau langan tíma til aðlagast lifnaðarháttum, siðum, venjum og smekk hverra annarra og þess vegna verðum við að gera eitthvað róttækt í að breyta fyrirkomulagi þessarar keppni, sem við í Vestur Evrópu höfum setið einir að, í um hálfa öld!!!

       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband