ELSTI ÍSKÁPUR Í HEIMI ER EKKI Í BRETLANDI HELDUR Á ÍSLANDI

     Þegar ég fletti föstudags eintaki Blaðsins rakst ég á grein sem bar yfirskriftina „FIMMTÍU ÁRA ÍSSKÁPUR“. Þar var greint frá því að hin breska Sally Garrod státaði af því að eiga elsta ísskáp í heimi sem enn er í notkun. Einnig kom þar fram að skápurinn hafi verið keyptur af  móður hennar  árið 1957 og að hún hafi gefið Sally skápinn góða, sem er af Prescold-gerð og bresk smíð, fyrir tuttugu árum.
    Þarna segir jafnframt að ísskápurinn hafi aldrei, á sínum langa líftíma, bilað þó svo að virkni hans nú sé ekki í líkingu við það sem hún er þegar hann var nýr.
      „Hurðin á frystihólfinu er brotin af, ljósið inn í honum hefur slokknað og það þarf að affrysta hann ansi reglulega.“ sagði Sally við breska fjölmiðla, en tók það þó fram að hún vildi ekki fyrir nokkurn mun missa skápinn.

    VARÐ HUGSAÐ TIL SKÁPSINS Í SUMARBÚSTAÐNUM


    Þegar ég las þessa grein þá var mér hugsað til ísskápsins sem foreldrar mínir hafa haft í sumarhúsi sínu sem var byggt árið 1968.
    Ísskápurinn er enn í fullri notkun, ljósið inni í honum lýsir vel, sjaldan þarf að affrysta hann og ef hann er settur á köldustu stillingu, þá á hann það til að frysta það sem er næst varmaskiptinum (elementinu) og einnig það sem er viðkvæmt fyrir kulda.
    Ég kom að máli við móður mína og spurði hana nánar út í sögu ísskápsins. Hún sagðist hafa, ásamt móður sinni, keypt skápinn nýjan árið 1957, hann sé Amerískur af Philco gerð og hafi verið fluttur inn frá Bandaríkjunum. Innflutningur þaðan hafi á þeim árum alltaf tekið nokkuð langan tíma, þannig að framleiðslu ár hans sé að öllum líkindum 1956 - ef ekki fyrr.
    Þær mæðgur keyptu hann til að hafa í íbúð sinni, sem þær höfðu nýlega eignast, þangað til móðir mín gifti sig og hóf búskap með föður mínum árið 1962, en þá hafi skápurinn fylgt með í nýja íbúð sem þau þrjú fluttu í, en það var um mína fæðingu.

LÍKLEGA ELSTI ÍSSKÁPUR Í HEIMI


    Hann var í þjónustu fjölskyldunnar í þeirri íbúð allt til ársins 1971 þegar fjölskylda mín flutti í stærri íbúð, en þá hafði fjölgað í fjölskyldunni og fest voru kaup á stærri ísskáp.
    Gamli skápurinn var fluttur uppí sumarbústað, en þau áttu það til að dvelja þar langdvölum á sumrin, þegar faðir minn hóf að taka sér lengri sumarfrí. Þau fóru fljótlega að sakna þess að hafa ekki ísskáp þar og því var kærkomið að fá gamla skápinn þangað, þar sem hann er enn.
    Að þessu sögðu má ætla að ísskápurinn fyrir austan sé mjög líklega eldri en ísskápur frú Garrod og því líklega elsti ísskápur í heimi sem enn er í notkun - ef taka má mark á staðhæfingum bresku pressunnar um breska skápinn. Til viðbótar lítur út fyrir að sá íslenski sé í mun betra ásigkomulagi en sá breski - enda Amerískur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband